Kolvetnisrannsóknasjóður

Kolvetnisrannsóknasjóður er mennta- og rannsóknasjóður í tengslum við kolvetnisstarfsemi á Íslandi í samræmi við lög nr. 13/2001 og  reglugerð nr. 885/2011 .   Sjá einnig verklagsreglur um starfsemi sjóðsins.

Allar tekjur sjóðsins samanstanda af gjöldum sem greiðast af sérleyfishöfum á Drekasvæðinu samkvæmt áðurnefndum lögum og reglugerð og í samræmi við skilmála viðkomandi leyfa.

Stjórn sjóðsins er skipuð einum fulltrúa hvers rannsóknar- og vinnsluleyfis auk fulltrúa íslenska ríkisins sem fer með formennsku í sjóðnum.

Orkustofnun annast daglega umsýslu Kolvetnisrannsóknasjóðs. Dagleg umsýsla skilgreinist m.a. sem upplýsingagjöf, móttaka styrkumsókna, mat og úrvinnsla styrkumsókna og eftirlit.

Hlutverk Kolvetnisrannsóknasjóðs

Hlutverk sjóðsins er að stuðla að því að efla rannsóknir og vísindalega þekkingu á kolvetnisauðlindum á landgrunni Íslands og á skilyrðum til myndunar þeirra, ásamt rannsóknum á tækni sem beita má við þær aðstæður er þar ríkja.  Þetta skal gert meðal annars með því:

1.     að veita styrki til rannsóknarverkefna og sérhæfðra námsáfanga með aðild og/eða atbeina íslenskra mennta- og rannsóknastofnana,

2.     að veita einstaklingum styrki til náms í greinum sem tengjast rannsóknum og vinnslu kolvetnis,

3.     að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði kolvetnis, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi,

4.     að veita styrki til rannsókna á sýnum og mæligögnum sem safnað er í tengslum við kolvetnisleit, og

5.     að veita styrki til að efla alþjóðasamvinnu um verkefni á landgrunni Íslands.