Varmadælur

Notendur, sem ekki eiga kost á að nýta jarðvarma til húshitunar, hita nær allir hús sín með rafmagni. Húshitun með raforku er talsvert dýrari en húshitun frá jarðvarmaveitu. Til að jafna búsetuskilyrði greiðir ríkið niður dreifi- og flutningskostnað raforku til hitunar heimila.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar af hálfu ríkisins eru umtalsverðar þar sem ríkið niðurgreiðir að fullu dreifi- og flutningskostnað raforku til húshitunar hjá notendum, þó aldrei meira en skilgreindur hámarksfjöldi kWst hvers notanda. Segja má að þeir sem njóta niðurgreiðslna séu í raun að hita híbýli sín í samvinnu við ríkið. Það er því sameiginlegt hagsmunamál ríkis og notanda að ná niður kostnaði við rafhitun. Í því samhengi er hægt að nefna varmadælur sem afar áhugaverðan kost. Varmadælur eru umhverfisvæn lausn sem bætir orkunýtingu og getur lækkað bæði rafhitunarkostnað notenda og niðurgreiðslukostnað ríkisins umtalsvert.

Til eru mismunandi tegundir varmadælna sem notast við ólíka tækni til framleiðslu á orku til húshitunar en helst má nefna eftirfarandi:

  • Loft í loft varmadælur taka inn útiloft og blása því heitu inn í húsnæðið.
  • Loft í vatn varmadælur taka inn útiloft og nýta það til þess að hita upp vatn sem fer á ofnakerfi húsnæða.
  • Vatn í vatn varmadælur (jarðvarmadælur) notast við jarðvarma til þess að hita upp vatn sem fer á ofnakerfi húsnæða.
  • Útloftunarvarmadælur eru sambærilegar loft í vatn varmadælum nema að þær endurnýta inniloft áður en því er skilað út úr húsi.    

Verð á varmadælum og kostnaður við uppsetningu á þeim er mjög mismunandi og geta útgjöld orðið þónokkur við að koma búnaðinum í notkun. Þeir notendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar eiga þess kost að sækja um eingreiðslu til Orkustofnunar vegna kaupa á varmadælu. Eingreiðsla er fyrirframgreidd niðurgreiðsla sem tekur mið af meðalnotkun viðkomandi húseignar og þeim sparnaði sem varmadæla skilar eða er áætlað að skili. Nánari upplýsingar um eingreiðslu og hvernig hægt er að sækja um hana má nálgast með því að smella hér .

Frekari upplýsingar um varmadælur má nálgast á vefsíðum viðkomandi sölu- og þjónustuaðila og hjá Orkusetri .