Varmadælur

varmadaelaÍbúar, sem ekki eiga kost á að nýta jarðvarma til húshitunar, hita flestir hús sín með rafmagni. Rafhitun er talsvert dýrari en húshitun frá jarðvarmaveitu. Til að jafna búsetuskilyrði greiðir ríkið niður raforku til hitunar heimila.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar af hálfu ríkisins eru umtalsverðar og nemur upphæðin árlega um eitt þúsund milljónum króna.  Segja má að þeir sem njóti niðurgreiðslna séu í raun að hita hýbýli sín í samvinnu við ríkið. Það er því sameiginlegt hagsmunamál ríkis og íbúa að ná niður kostnaði við rafhitun. Niðurgreidd raforka nemur um 350 GWh og er því eftir talsverðu að slægjast að draga úr slíkri orkunotkun.

Varmadælur eru afar áhugverður kostur sem getur lækkað kostnað við rafhitun um 25 – 80% eftir tækni og aðstæðum á hverjum stað. Varmadælur eru því umhverfisvæn lausn sem bætir orkunýtni og lækka rafhitunarkostnað fólks sem og niðurgreiðslukostnað ríkis umtalsvert. Sjá nánar upplýsingar um varmadælur og eingreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar.

Varmadæluvefur Orkuseturs

Varmadæla vinnur á svipaðan hátt og kæliskápur. Kæliskápur flytur varmann innan úr kæliskápnum út fyrir hann og skilar honum í kæligrind (varmaskipti) aftan á honum. Varmadælan sækir varmann í einhvers konar varmauppsprettu og skilar honum í ofnakerfi í viðkomandi húsi á hærra hitastigi en uppsprettan gefur. Helsti tækjabúnaður varmadælu er þjappa, eimsvali, mótstöðuloki, eimari ásamt rörum til að tengja búnaðinn saman, sjá mynd 17. Auk þess þarf vinnslumiðil, vökva sem hefur þann eiginleika að sjóða við tiltölulega lágt hitastig, en varmadælan nýtir sér eiginleika miðilsins að geta breytt um fasa, þ.e. að breytast úr vökva í gas (og úr gasi í vökva) við það hitastigi sem mismunandi hlutar varmadælunnar er ætlað að vinna á. Raforku þarf til að knýja dælukerfið, en við fasabreytinguna myndast varmaorka sem nýtt er til húshitunar. Sú raforka sem þarf til að knýja dælukerfið er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafhitun.  Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá henni og orkunnar sem þarf til að knýja hana.