Örvunarskjálftar

Örvunarskjálftar verða þegar vökva er dælt ofan í jörðina beinlínis í því markmiði að brjóta bergið til að mynda sprungur um heitt bergið svo unnt sé að vinna varmann úr jörðu. Til þess að gera það þarf að dæla vatni niður undir mjög háum þrýstingi þannig að spennur sem myndist við niðurdælinguna yfirstígi brotþol bergins næst holunni. Þetta eru skjálftar sem ekki hefðu orðið nema fyrir tilverknað niðurdælingarinnar og eru því alfarið manngerðir.

Vökva er stundum dælt niður í borholur undir háum þrýstingi til að búa til sprungur í heitu bergi þannig að ná megi til varmaorkunnar sem þar er. Slík niðurdæling veldur óhjákvæmilega jarðskjálftum sem verða þegar bergið brotnar. Þessir jarðskjálftar eru venjulega mjög litlir og vart finnanlegir nema með mælingum. Þó eru aðstæður á sumum stöðum þannig að skjálftarnir verða nokkuð stærri og finnanlegir þótt ekki séu til dæmi um að þeir hafi valdið tjóni svo neinu nemur. Á alþjóðavettvangi er nú unnið mikið að rannsóknum á skjálftum sem verða við þrýstiörvun borholna. Markmiðið er að búa til leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að slíkum verkefnum án þess að skjálftar valdi fólki óþægindum, hvað þá tjóni.

Þrýstiörvun jarðhitakerfa er gerð með tilraunum erlendis til að vinna jarðhitaorku úr svæðum þar sem náttúruleg lekt er lítil. Ef það tekst að búa þannig til jarðhitakerfi með manngerðum sprungum væri hægt að margfalda framleiðslu á jarðhitaorku í heiminum. Tilraunir af þessu tagi hafa meðal annars farið fram í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss, Englandi og Ástralíu en hefur ekki verið beitt svo neinu nemur á Íslandi.