Smáskjálftar af völdum niðurdælingar við Húsmúla

Borholur á HellisheiðiNiðurdæling þéttivatns og skiljuvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur nýlega verið flutt frá Gráuhnúkum yfir til Húsmúla og aukin vegna stækkunar virkjunarinnar. Þetta hefur haft í för með sér aukna skjálftavirkni á svæðinu sem fram hefur komið á mælum og einnig hafa stærstu skjálftarnir sem eru allt að 4 á Richter verið merkjanlegir í byggð. Niðurdæling Orkuveitu Reykjavíkur er í samræmi við ákvæði gildandi starfsleyfis og virkjunarleyfis Hellisheiðarvirkjunar. Aðalástæður þess að niðurdælingar er krafist er verndun grunnvatns og yfirborðsvatns sem og nauðsyn þess að viðhalda vatnsþrýstingi í þeim jarðhitakerfum sem unnið er úr.

Að beiðni iðnaðarráðherra hefur Orkustofnun opnað upplýsingavef þar sem hægt er að finna svör við ýmsum spurningum er tengjast smáskjálftum af völdum niðurdælingar. Orkustofnun hefur umsjón með vefnum og sækir þekkingu varðandi svör við spurningum til viðeigandi stofnana.

Að síðunni standa auk iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar, umhverfisráðuneytið, Veðurstofa Íslands og Íslenskar orkurannsóknir.