Aðdragandi setningu reglna

Losun affallsvökva djúpt í jörðu niður í jarðhitakerfið eða útjaðra þess er víða talin æskileg af umhverfissjónarmiðum auk þess sem hún spornar við þrýstingslækkun í kerfinu og getur stutt við nýtingu kerfisins. Í tilfelli Hellisheiðarvirkjunar er losun  affallsvökva í jörðu sett sem skilyrði í virkjunarleyfi Orkustofnunar og starfsleyfi Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

Í kjölfar á flutningi á niðurrennslissvæði Hellisheiðavirkjunar frá Gráuhnúkum til Húsmúla í september 2011 hófst hrina skjálfta sem kom vel fram á mælum auk þess sem stærri skjálftarnir fundust í byggð. Iðnaðarráðherra óskaði þá eftir því við Orkustofnun að stofnunin gerði úttekt á smáskjálftavirkni tengdri losun í jörðu á Hengilssvæðinu. Stofnunin skilaði ráðherra niðurstöðum sínum í formi minnisblaðs í október 2011 þar sem niðurstaðan var sú að losun auki ekki líkur á að stærri jarðskjálftar geti myndast á svæðinu en hins vegar gætu staðbundnar tilfærslur á spennu flýtt stærri skjálftum sem eru í aðsigi. Jafnframt lýsti stofnunin því yfir að hún myndi hefja samráðsferli við hagsmunaaðila í því skyni að meta hvort þörf væri á sérstöku áhættumatsferli vegna losunar vökva í jörðu um borholur. Athugað yrði jafnframt hvort gera þyrfti sérstakar kröfur um vöktun og hugsanlega áfangaskiptingu losunar og hvernig hægt væri að bæta upplýsingagjöf til almennings áður en losun er hafin á svæðum nærri byggð.

Orkustofnun, í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, umhverfisráðuneytið, Veðurstofu Íslands og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) setti ennfremur á laggirnar tímabundinn upplýsingavef um smáskjálfta vegna losunar vökva í jörðu með ýmsum fróðleik um Hellisheiðarvirkjun og upplýsingar tengdar smáskjálftum og losun vökva.

Í nóvember 2011 setti Orkuveita Reykjavíkur (OR) á laggirnar stýrihóp skipaðan sérfræðingum innan sem utan fyrirtækisins sem hafði það verkefni með höndum að „draga saman upplýsingar um örvaða skjálftavirkni í jarðhitakerfum og leggja fram tillögur um verklag við niðurdælingu vatns frá Hellisheiðarvirkjun og viðbrögð við skjálftavirkni sem henni fylgir“. Orkustofnun ákvað að bíða með frekari aðgerðir  á meðan beðið væri niðurstöðu stýrihópsins. Skýrsla hópsins kom út í september 2012 og í framhaldi af því setti fyrirtækið sér vinnureglur við framkvæmd losunar jarðhitavökva í jörðu við aðstæður sem gætu örvað jarðskjálftavirkni.

Orkustofnun fór þess á leit við Íslenskar orkurannsóknir í október 2012 að rýna niðurstöður stýrihópsins með eftirfarandi í huga:

  1. Bera tillögur skýrslunnar saman við staðla í öðrum löndum.
  2. Gera tillögur um með hvaða hætti Orkustofnun ætti að skilyrða losun við útgáfu virkjunar- og nýtingarleyfa þannig að tekið sé tillit til hugsanlegra jarðskjálfta við niðurdælingar.
  3. Benda á hugsanlegar mótvægisaðgerðir.
  4. Benda á leiðir til að halda almenningi og stjórnvöldum upplýstum.

ÍSOR sendi stofnuninni greinargerð í september 2013 og mælti með því að tillögur OR að verklagi yrðu notaðar sem grundvöllur að útfærslu á almennum skilyrðum Orkustofnunar við leyfisveitingar. Orkustofnun tók grunnhugmyndir ÍSOR og vann út frá þeim frumtillögu að verklagsreglum um losun í jörðu og unnið var að málinu að höfðu ítarlegu samráði við orkufyrirtæki og hlutaðeigandi stofnanir auk þess sem drög að reglunum voru auglýstar á heimasíðu Orkustofnunar þar sem hverjum sem áhuga hefði var boðið að gera athugasemdir. Að loknu þessu ferli voru reglurnar gefnar út í janúar 2016.