Losun á vökva í jörðu um borholur

Losun jarðhitavökva í jörðu er mikilvægur þáttur við nýtingu jarðhita, annars vegar til förgunar vökva og hins vegar til að sporna við þrýstingslækkun í jarðhitakerfum. Í sumum tilfellum er losun skylda samkvæmt nýtingarleyfi skv. lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og/eða starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og stunduð frá upphafi reksturs. Í öðrum tilfellum hefur verið gripið til hennar eftir að rekstur hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Víða er jarðhiti þó unninn án losunar í jörðu.

Rannsóknir á losun vökva í jörðu á jarðhitasvæðum hafa sýnt að á virkum jarðskjálftasvæðum á Íslandi örvar hún nokkra smáskjálftavirkni, sem finnst yfirleitt lítið á yfirborði. Í einstökum tilvikum eru talsverðar líkur á að aukinn vökvaþrýstingur vegna losunar hafi hleypt af stað stærri skjálftum.

Áhrif jarðskjálfta í tengslum við losun eru af tvennum toga, annars vegar hætta á skemmdum á mannvirkjum og líkamstjóni og hins vegar óþægindi af völdum síendurtekinna smárra skjálfta og geta þeir haft áhrif á fjölmarga aðila og hagsmuni þeirra. Í ljósi þessa hefur Orkustofnun gefið út reglur um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar á vökva í jörðu um borholur.

Setning reglnanna hefur þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi að nýtingaraðilar jarðhita sem hyggjast losa vökva aftur djúpt í jörðu um borholur leggi mat á jarðskjálftahættu vegna losunar á vökva í jörðu áður en ráðist er í framkvæmdir,  í öðru lagi að í því ferli hugi þeir að því hvernig best sé að draga úr líkum á aukningu á jarðskjálftavirkni vegna losunarinnar og í þriðja lagi að þeir komi sér upp viðbragðsáætlun sem hægt verði að grípa til ef jarðskjálftar verða við eða vegna losunarinnar. Í því skyni að skýra nánar einstök efnisatriði í reglunum og gefa dæmi um atriði sem rekstraraðilar jarðhitanýtingar geta haft í huga við undirbúning og framkvæmd losunar vökva í jörðu um borholur hefur Orkustofnun jafnframt unnið leiðbeiningar fyrir reglurnar.

Í aðdraganda reglusetningar og á fyrri stigum málsins hefur Orkustofnun einnig dregið saman ýmsar upplýsingar um örvun jarðskjálfta í tengslum við losun á vökva í jörðu um borholur, sbr. neðanskráð, sjá einnig vallista hér til hliðar

Almennar upplýsingar um smáskjálfta

Aðdragandi setningu reglna

Spurningar og svör