Orkuflæði jarðhita

Flæðirit jarðhitaFrumorkunotkun jarðhita nam samtals 144,2 PJ árið 2008. Þar af nam frumorkuvinnsla á háhitasvæðum 121,7 PJ og fóru 121,1 PJ til jarðvarmavirkjana.  Þar af var 14,5 PJ umbreytt í raforku og 11,9 PJ veitt til hitaveitna, en 6,6 PJ var dælt aftur niður í jarðhitakerfin. Hveragerði telst til háhitasvæða og er áætluð vinnsla þar um 0,6 PJ. Heildarvinnsla á lághitasvæðum nam 29,2 PJ.  Þar af var vinnsla veitna sem hafa einkaleyfi og starfa samkvæmt reglugerð, 24,7 PJ, en vinnsla einkaveitna er talin hafa numið um 4,5 PJ. 

Ónýttur varmi og töp námu samtals 105,1 PJ. Liðurinn ónýttur varmi og töp er nokkuð stór í samanburði við vinnslu, en vegna lágs vermis eru gæði orkunnar rýr og takmörk fyrir þvi að hve miklu leyti er hægt að bæta nýtingu. 

Ónýttur varmi og töp í flutnings- og dreifikerfum hitaveitna eru talin hafa numið 7,4 PJ.  Frumorka hitaveituvatns sem skilaði sér til neytenda nam því 34,2 PJ, en ónýtt frumorka bakrásarvatns nam 9,0 PJ.  Frumorka bakrásarvatns til niðurdælingar var innan við 0,1 PJ.  Töp á raforku frá jarðvarmavirkjunum í veitukerfi rafveitna eru talin hafa numið 0,5 PJ og því skiluðu 14,0 PJ sér til neytenda.