Jarðhitavinnsla
Á tuttugustu öldinni lærðu Íslendingar að nýta tvær mikilvægustu orkulindir sínar, vatnsaflið og jarðhitann. Til samans leggja þær nú til meira en þrjá fjórðu hluta af þeirri frumorku sem landsmenn nýta.
Á síðustu öld var mikið átak gert í virkjun jarðhita til húshitunar. Á síðari árum hefur áhugi einnig aukist á að framleiða raforku í jarðvarmaverum og mæta þannig vaxandi rafmagnsþörf stóriðjunnar.
Jarðhitaorka er endurnýjanleg orkulind. Vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna. Í mörgum tilvikum hefur aukin vinnsla í för með sér að aðstreymi til jarðhitasvæðanna eykst og nýtt jafnvægi kemst á milli vinnslu og aðstreymis. Það getur því verið snúið að ákvarða efri mörk sjálfbærrar nýtingar í einstöku jarðhitakerfi, og það verður trauðla gert nema í tengslum við nýtingu. Orkustofnun mun með ráðgjöf við stjórnvöld og orkufyrirtæki reyna að gæta þess að farið verði varlega við nýtingu einstakra jarðhitasvæða svo að hagkvæmri nýtingu hvers og eins verði viðhaldið sem lengst. Ef vinnsla reynist of ágeng getur verið hagstætt að hvíla jarðhitasvæðið um álíka langan tíma og vinnslan hefur staðið svo að það geti jafnað sig og staðið undir nýju vinnsluálagi (sjá Guðni Axelsson o.fl., Orkuþing 2006).