Jarðhitanotkun

Það má með sanni segja að meðal merkustu tækniframfara Íslendinga á liðinni öld séu þau vaxandi tök sem náðust á nýtingu jarðhita sem leynst hefur djúpt í jarðlögum undir landinu án þess að menn grunaði hvílíkur auður væri þar fólginn.

Íslendingar eru nú meðal fremstu þjóða í nýtingu jarðhitans. Frumorkunotkun jarðhita á Íslandi árið 2014 nam 66% af frumorkunotkun landsmanna.

Með frumorkunotkun er átt við varmainnihald vökvans yfir 15 gráður. Það ræðst hins vegar af nýtingarferlum hve mikill hluti frumorkunotkunar skilar sér til ætlaðra nota og nefnist sá hluti notorka. Notorkan nemur misháu hlutfalli af frumorkunni eftir því um hvers konar nýtingu er að ræða.

Langmestur hluti af nýtingu jarðhitans hér á landi fer til húshitunnar. Árið 2010 nam bein notkun jarðhita á landinu 25,4 PJ, en heildarnotkun að meðtalinni raforkuvinnslu nam 41,4 PJ. Tölulegar upplýsingar um frumorkunotkunina er að finna hér.

Beinni notkun jarðhita er skipt niður í flokkana húshitun, snjóbræðslu, fiskeldi, sundlaugar, iðnað og ylrækt, en raforkunotkun telst til óbeinnar notkunar.  Þróunin er sýnd á meðfylgjandi myndum.

Jarðhitanotkun eftir flokkum 1990-2009

Þróun jarðhitanotkunar yfir tímabilið 1990-2009 eru gerð skil í skýrslu Orkustofnunar um jarðhitanotkun til raforkuvinnslu og beinna nota til ársins 2009. Höfundar eru Ingimar Guðni Haraldsson og Jónas Ketilsson.  Í skýrslunni er gerð grein fyrir jarðhitanotkun til raforkuvinnslu og beinna nota frá 1990 til 2009. Tölur yfir jarðhitanotkunina eru að finna hér.

Sérstök úttekt var gerð á stöðu jarðhitanotkunar árið 2009 og dreifingar notkunaraðila um landið.