Jarðhitinn

VarmaflæðiJarðhiti er önnur af tveimur mikilvægustu orkulindum á Íslandi og gegnir þar burðarhlutverki móti vatnsorkunni. Báðar þessar orkulindir hafa sín séreinkenni, og má nefna sem dæmi að auðveldara er að mæta snöggum sveiflum í eftirspurn eftir raforku með vatnsaflsvirkjunum en jarðhitavirkjunum. Sameiginleg einkenni þeirra skipta einnig miklu máli fyrir nýtingu þeirra, svo sem sú staðreynd að í báðum tilfellum er um „græna“ orkugjafa að ræða sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti. Orkuberinn er í báðum tilfellum vatn, þar sem vatnsorkan nýtir stöðuorkuna en jarðhitinn varmaorkuna.

Jarðhitaorka er endurnýjanleg orkulind. Vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna. Í mörgum tilvikum hefur aukin vinnsla í för með sér að aðstreymi til jarðhitasvæðanna eykst og nýtt jafnvægi kemst á milli vinnslu og aðstreymis. Það getur því verið snúið að ákvarða efri mörk sjálfbærrar nýtingar í einstöku jarðhitakerfi, og það verður trauðla gert nema í tengslum við nýtingu. Orkustofnun mun með ráðgjöf við stjórnvöld og orkufyrirtæki reyna að gæta þess að farið verði varlega við nýtingu einstakra jarðhitasvæða svo að hagkvæmri nýtingu hvers og eins verði viðhaldið sem lengst. Ef vinnsla reynist of ágeng getur verið hagstætt að hvíla jarðhitasvæðið um álíka langan tíma og vinnslan hefur staðið svo að það geti jafnað sig og staðið undir nýju vinnsluálagi (sjá Guðni Axelsson o.fl., Orkuþing 2006). 

Frumorka sem nú er tekin úr jarðvarma nemur um 22 TWh á ári borið saman við nýtanlegt náttúrulegt flæði til endurnýjunar sem var um 59 TWh á ári. Sjálfbær raforkuframleiðsla úr háhita hefur verið metin um 20 TWh/ári miðað við núverandi tækni og reynslu. Til hennar þyrfti frumorku sem næmi um 200 TWh á ári og væri markvert meiri en náttúruleg endurnýjun. Ef síðar reynist t.d. tæknilega mögulegt að nýta varmastraum á sprungubeltinu utan þekktra háhitasvæða og/eða vinna háhitann á meira dýpi en nú tíðkast, kann mat á vinnanlegum jarðhita til raforkuvinnslu að hækka til muna (sjá Sveinbjörn Björnsson, Orkuþing 2006).