Torfajökulssvæði

Torfajökulssvæðið er samfelldur fjallabálkur sem rís 300–600 m yfir umhverfið.  Svæðið fellur að mestu innan friðlands að Fjallabaki. Jarðhiti og jarðhitamerki á Torfajökulssvæðinu ná yfir um 200 km2 svæði. Kjarni virka jarðhitans er í feiknamikilli öskju og nær yfir um 100 km2, en ummyndun í bergi nær langt út fyrir hana og afrennslisvatn kemur fram á lágsvæðum utan við fjallabálkinn, aðallega sunnan megin. Jarðhitinn er aðallega í sjö þyrpingum, sem kenndar eru við Landmannalaugar, Hattver, Háuhveri, Stórahver, Vestur- og Austur-Reykjadali og Ljósártungur.

Á Torfajökulssvæðinu skiptir í tvö horn um landslag. Austursvæðið er útgrafið af giljum þar sem er Jökulgilskvíslin. Sprungu- og eldvirkni nær inn á austursvæðið allra nyrst með NA-SV-lægum brotum og gossprungu Laugahrauns. Austursvæðið einkennist af litskrúðugu bergi í brattlendi en dökku móbergi og ösku þar sem háslétta tekur við ofan gilja. Mestallt vestursvæðið er öldótt háslétta með grunnum daldrögum. Markarfljót rennur vestur af henni og sýpur upp smáár og læki úr Reykjadölum. Eina umtalsverða rofsvæðið er í Ljósártungum. Yfir að líta er vestursvæðið dökkt, með gufustrókum og grænum rindum þar sem raklent er.

Hugmyndir um virkjun hafa einkum beinst að Austur- og Vestur-Reykjadölum, þó miklu fremur að Austur-Reykjadölum (Hrafntinnuskers-svæðinu), enda er það svæði stærra og virknin þar miklu meiri. Stórahverssvæðið liggur einnig vel við virkjun. Önnur þau svæði sem hér eru talin kæmu síður til álita vegna verndarsjónarmiða og sum vegna ills aðgengis.

Stærð svæðisins er meti 253 km2 og rafafl 1265 MWe.