Þeistareykir

Þeistareykjasvæðinu má skipta í þrennt eftir jarðmyndunum og landslagi: 1) Vestast er fjallendið í Lambafjöllum norður á Höfuðreiðarmúla. 2) Hraunasvæði er í siglægðinni milli Lambafjalla og Þeistareykjafjallanna og austast eru 3) Þeistareykjafjöllin austur á Þeistareykjabungu og suður fyrir Þórunnarfjöll. Virkur jarðhiti er á svæðum 2 og 3, en kulnaðar skellur frá því mjög snemma á nútíma eru á svæði 1. Niðurstöður viðnámsmælinga benda til að jarðhitasvæðið í heild sé allt að 45 km2, og að aðaluppstreymið á austurhluta sé eftir NNA-SSV sprungukerfi norður úr Bæjarfjalli.

Gert er ráð fyrir að skipta þurfi vinnslunni á tvö svæði. Álitlegasta vinnslusvæði jarðgufu er á austursvæðinu á Þeistareykjum sjálfum og þar er ráðgert að reisa allt að 200 MWe virkjun. Boraðar hafa verið 6 djúpar rannsóknarholur á austurhluta svæðisins. Ein 400 m kjarnahola hefur verið boruð á vestursvæðinu og stefnt er að frekari könnun þess með rannsóknarborunum.

Stærð svæðisins er metin 48 km2 og rafafl 240 MWe.