Reykjanessvæði
Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C.Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.
Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hverasvæðið við Gunnuhver.
HS Orka hóf 100 MWe raforkuvinnslu í maí 2006. Stækkun Reykjanesvirkjunar var raðað í nýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar.