Önnur háhitasvæði

Stóra Sandvík

Niðurstöður MT- djúpviðnáms­mælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtan­legur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp - Svartsengi

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga.  Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan.  Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe

Hrúthálsar

Í framhaldi af Herðubreiðarfjöllum til suðurs, í um 15 km fjarlægð frá Herðubreið eru Hrúthálsar, lágur og eggjóttur fjallgarður sem nær norður að Gjáfjöllum. Einkennandi fyrir svæðið sem er í 1000-1100 m hæð yfir sjó eru unglegar minjar um eldvirkni. Berg á svæðinu er mikið ummyndað og gifsbreiður sjást á yfirborði. Ummyndunin gefur til kynna að svæðið sé um 7 km2 að stærð. Greinilegar eldstöðvar sjást í sveig sem er á milli Herðubreiðarfjallanna og hálsanna og apalhraun virðist hafa runnið norður með austurhlíð fjallanna yfir eldra helluhraun. Norðan til í apalhrauninu er töluverður gróður sem liggur í lægðum.

Jarðhitasvæðið er metið 4 km2 og rafafl 20 MWe.

Fremrinámar

Jarðhitasvæðið í Fremrinámum er austanhallt í gígsvæði Ketildyngju í 800-900 m hæð y.s. Dyngjan er um 4000 ára gömul. Niðri í byggð kallast hraunið úr henni Laxárhraun eldra. Hverasvæðið er teygt í N-S stefnu, um 1500 m á lengd og fylgir gígaröðum og brotum sem þannig liggja. Hveravirknin er annars vegar gufuhverir með brennisteinsþúfum og hveraleir undir, en umhverfis er kragi af rauðþúfum þar sem hrein vatnsgufa stígur upp. Sandur fýkur og sest þar að, oxast með tímanum og gefur rauða litinn, en hveraleir er neðar í þeim. Leirhverir sjást varla. Köld ummyndun nær norður í Ketilhyrnu austari. Með henni ná jarðhitamerkin fulla 3 km N-S. Brennisteinshverasvæðið er um 1 km2 að stærð, en með rauðþúfukraganum er það um 1,5 km2.

Forathugun er hafin með yfirborðsrannsóknum og TEM mælingum. Mikill brennisteinn bendir til að svæðið sé virkt, og efnagreiningar á gufum frá svæðinu benda til djúphita á bilinu 280-300 °C. Í Heilagsdal austan í Bláfjalli er fornt kulnað eða kulnandi háhitasvæði.

Stærð svæðisins er metin  10 km2 og rafafl 50 MWe.


Nánari lýsingar á jarðhitasvæðum er að finna á vef Rammaáætlunar.