Kverkfjöll

Kverkfjöll eru í norðanverðum Vatnajökli og að mestu úr móbergi frá síðustu ísöld. Jarðhitasvæðið sem tengist megineldstöðinni nær yfir um 25 km2 og eru þar einkum gufuhverir í fjöllunum en laugar í giljum. Talið er að lægð milli Austur- og Vestur-Kverkfjalla geti verið askja. Virkum jarðhita má skipta í tvennt og er jarðhitasvæðið í Vestur-Kverkfjöllum öflugra og betur þekkt. Hitt svæðið er í Hveragili og nær þar upp í brúnir fjallanna. Hveragil er eitt af þremur giljum eða gljúfrum með suðvestlæga stefnu milli Brúarjökuls og Austur-Kverkfjalla. Gilin eru allt að 80 m djúp, víða mjög þröng og grafin gegnum basalthraunlög, móberg og stórfengleg bólstrabergslög.  Heildarrennsli í laugum í Hveragili nemur mörgum tugum l/s og víða eru mjög fallegar kalkútfellingar.

Gas bendir til 300°C hita. Stærð svæðisins er metin 31 km2 og rafafl 155 MWe. Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs.