Krafla
Jarðhitasvæðið í Kröflu er í gamalli öskju sem er næstum fyllt upp á barma af móbergi og hraunum, en klofin í tvo helminga af gjástykki með NNA-SSV-stefnu. Jarðhiti og jarðhitamerki eru á belti sem liggur þvert þar á, í öskjunni miðri frá Hrafntinnuhrygg í austri og vestur í Krókóttuvötn. Hverir eru aðeins í eystri helmingi öskjunnar og gjástykkinu. Sprengigígar og miklar leirmyndanir frá nútíma (Hvannstóð og Krókóttuvötn) vitna um öfluga hveravirkni vestast í öskjunni, þótt nú sé það svæði kalt. Helsta einkenni jarðhitasvæðisins í Kröflu eru sprengigígarnir, bæði sakir stærðar (nokkur hundruð metrar að þvermáli) og hins hversu fagurlega lagaðir þeir eru og úrkastið auðrekjanlegt, og er þá átt við þá yngstu, Hvannstóð og gígana kringum Víti. Auk þeirra koma fyrir hreinir gufusprengigígar, en miklu minni. Eins og á öðrum háhitasvæðum er á Kröflusvæðinu aðallega að finna leir- og gufuhveri, en þar er einnig töluvert um brennisteinsþúfur, einkum sunnan í Kröflu. Víða sjást tengsl jarðhitavirkni við misgengissprungur, svo sem í Leirhnjúk, Vítismó (þar er kalt nú) og sunnan í Kröflu.
Tveir kostir á aukinni orkuvinnslu úr jarðhitasvæðinu við Kröflu koma til greina: Stækkun núverandi stöðvar, Kröfluvirkjun I, um 40 MWe í 100 MWe og ný virkjun, Kröfluvirkjun II, sem yrði um 90-135 MWe, eftir því hvort núverandi virkjun verður stækkuð eða öll orkuvinnslan verði í nýrri virkjun. Vinnslusvæði Kröfluvirkjunar í Kröfluhlíðum eru skilgreind á grundvelli borana og nefnd Suðurhlíðar, Hveragil og Leirbotnar. Flatarmál þessara þriggja undirsvæða er einungis um 2 km2, samt er breytileikinn slíkur að hluti þess er ekki nýtanlegur vegna viðvarandi áhrifa kvikugasa.
Landsvirkjun hefur borað 3 rannsóknarholur á Vestursvæði, sem ekki stóðu undir væntingum, og hefur frestað frekari rannsóknum. Talið er að unnt sé að vinna háhita við Leirhnjúk með stefnuborun frá vinnslusvæðinu við Kröflu fyrir ofangreinda áfanga. Áætlað er að bora þurfi 25-30 nýjar holur vegna vinnslu Kröflu II. Flestar yrðu boraðar frá borteigum sem þegar eru fyrir hendi, en þá þarf að stækka til að hver um sig geti tekið við 4-6 borholum. Auk þeirra sem fyrir eru, er gert ráð fyrir 3-4 nýjum borteigum vegna rannsókna- og vinnsluborana. Þetta er óveruleg stækkun núverandi borsvæða. Ekki liggja fyrir endanlegar tillögur um staðsetningu og fyrirkomulag einstakra mannvirkja á byggingalóðinni. Í upphafi var öllu affallsvatni fargað á yfirborði, en eftir úttekt á aðstæðum hófst niðurdæling sem smám saman hefur verið aukin.
Mat á stærð jarðhitasvæðisins í Kröflu og Námafjalli er metin 62 km2 og rafafl 310 MWe.