Kerlingarfjöll

Háhitasvæðið í Kerlingarfjöllum er þrískipt. Meginvirknin er í Neðri-Hveradölum og tengist rima aðalöskju fjallanna. Neðri Hveradalir greinast í Vesturdali, Miðdali (Fannardal) og Austurdali. Svæðið er allt sundurskorið af djúpum giljum (dölum). Gufu- og leirhverir eru áberandi með litlu sem engu frárennsli vatns. Hverirnir eru í 900–1040 metra hæð y.s. Annar staður er í Efri-Hveradölum, vel innan öskjunnar. Efri Hveradalir skilja sig frá þeim neðri með dálitlum líparíthálsi, sem gengur suður úr Hverahnúk. Svæðið er suður af Snækolli. Hverirnir eru í 1020–1150 metra hæð y.s. og þeir sem hæst liggja í Kerlingarfjöllum. Þriðji hitastaðurinn er Hverabotn, lítið svæði suðaustan í Mæni, og þar virðist hitinn tengdur broti vesturöskjunnar. Þar eru margir og mjög kraftmiklir hverir sem liggja í 950–1000 metra hæð y.s. Auk þessa er vitað um allstórt svæði suðaustantil í Kerlingarfjöllum, kennt við Kisubotna og Bríkargil þar sem mikið er um jarðhitaummyndun.

Svæðið sem einkennist af suðu og ummyndun er um 7 km2. Hveravirkni er mikil og óvíða á háhitasvæðum munu laugar, hverir og gufuaugu jafn þéttstæð. Það þýðir að fá svæði eru jafn orkurík á flatareiningu. Gufuaugu, gufuhverir, soðpönnur og leirhverir eru algengustu hverirnir. Litríkar útfellingar af brennisteini og söltum eru víða kringum gufuaugu og fjölbreytilegt litaspil í hveraleirnum. Tvær borholur við Árskarðsá gefa mikið magn af volgu vatni (25-35°C). Vatnið er nýtt til baða og í heita potta.

Stærð svæðisins er metin 39 km2 og rafafl um 195 MWe.