Hveravellir

Samkvæmt viðnámsmælingum er uppstreymi jarðhitavatns á Hveravöllum um 2,5 km langa sprungu með stefnu nálægt N28°V. Mesta uppstreymið er undir aðalhverasvæðinu á Hveravöllum. Lágt viðnám í yfirborði er við Einbúa og bendir greinilega til uppstreymis þar. Þetta lágviðnám breiðir úr sér með dýpi og tengist jarðhitastöðum sem kenndir eru við Þegjandavolgrur. Beljandavolgrur eru um 7 km norður af Hveravöllum við ána Beljanda. Lágviðnámslag er neðan 400–700 metra dýpis á mælisvæðinu, grynnst er á það á norðvestanverðu svæðinu og dýpkar á það til suðausturs. Engin merki eru um háviðnámskjarna í efstu 800–1000 metrum, eða eins djúpt og mælingarnar skynja með góðu móti. Það bendir til þess að hitinn í kerfinu sé lægri en 240°C ofan 1 km dýpis. Svipmót er með Hveravallasvæði og Geysissvæði. Hverir eru fjölbreyttir að gerð, gufu-, leir-, og vatnshverir, laugar og volgrur. Goshverir gjósa óreglulegum smágosum. Útfellingar eru áberandi, hverahrúður og kísilbungur.

Rafafl er metið um 70 MWog stærð 14 km2