Hrúthálsar

Í framhaldi af Herðubreiðarfjöllum til suðurs, í um 15 km fjarlægð frá Herðubreið eru Hrúthálsar, lágur og eggjóttur fjallgarður sem nær norður að Gjáfjöllum. Einkennandi fyrir svæðið sem er í 1000-1100 m hæð yfir sjó, eru unglegar minjar um eldvirkni. Berg á svæðinu er mikið ummyndað og gifsbreiður sjást á yfirborði. Ummyndunin gefur til kynna að svæðið sé um 7 km2 að stærð. Greinilegar eldstöðvar sjást í sveig sem er á milli Herðubreiðarfjallanna og hálsanna og apalhraun virðist hafa runnið norður með austurhlíð fjallanna yfir eldra helluhraun. Norðan til í apalhrauninu er töluverður gróður sem liggur í lægðum.

Jarðhitasvæðið er metið 4 km2 og rafafl 20 MWe.