Hengilssvæði

Nesjavallavirkjun

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Rafafl á Nesjavöllum er nú 120 MWe og varmaafl 300 MWth . Hellisheiðarvirkjun er nú 303 MWe en hefur leyfi fyrir 400 MWth í varmaafli.  Virkjunin nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð.  Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.