Hágöngur og Vonarskarð

Hágöngur

Hágöngur eru um 40 km norðaustur af Þórisvatni. Háhitasvæðið er að hluta til undir Hágöngulóni. Á svæðinu er megineldstöð, um 10 km í þvermál og er ekki ólíklegt að í henni sé askja þótt hún sjáist ekki. Til þess benda líparítmyndanir sem raða sér á hálfboga (m.a. Nyrðri- og Syðri-Hágöngur). Ekkert hefur gosið þarna á nútíma. Yfirborðsjarðhiti er fyrst og fremst á þremur stöðum og tveir þeirra lentu undir vatni er Hágöngulón var fyllt. Þriðji staðurinn er vestast í Sveðjuhrauni.Landsvirkjun hefur hafið rannsóknir á háhitasvæðinu, og þegar borað þar eina djúpa rannsóknarholu. Stærð svæðisins er metin 43 km2 og rafafl 215 MWe.

Vonarskarð

Megineldstöðin, sem kennd er við Vonarskarð, er austan í Tungnafellsjökli. Í henni er greinileg askja 8–10 km í þvermál og skerst hún inn í austurhlíðar Tungnafellsjökuls. Jarðhitinn er aðallega vestan-og sunnan til í öskjunni. Þar eru gufu- og leirhverir í þyrpingum á allmörgum stöðum svo og merki um kulnaða ummyndun. Fjallið Eggja er um miðbik þessa svæðis. Tveir staðir eru í giljum norðan til í öskjunni við öskjujaðarinn sem þar ber nafnið Gjósta. Merkilegt jarðhitafyrirbæri er kulnuð háhitaummyndun um miðbik öskjunnar á um 4 km2 bletti, mynduð við 300°C hita. Þetta er einungis hægt að skýra þannig að 300°C hiti hafi ríkt á yfirborði á þessum stað í vatni og undir 1 km þykku jökulfargi. Virka jarðhitasvæðið í Vonarskarði er um margt óvenjulegt en þó helst að því leyti að grunnvatnsborð er einkar hátt miðað við hálendissvæði inni á miðju Íslandi, og renna volgar lindir og lækir frá svæðinu á mörgum stöðum. Lífríki verður af þeim sökum fjölskrúðugt og litríkt. Óvenjuhá grunnvatnsstaða tengist að öllum líkindum þéttu háhitaummynduðu bergi rétt undir yfirborði á virka svæðinu, svipað því sem sést í miðju öskjunnar. Gashitamælar benda til um 300°C í jarðhitakerfinu. Mælingar ná ekki yfir vesturhluta jarðhitakerfisins og er því ekki vitað um mörk þess.

Stærð svæðisins er metin 29 km2 og rafafl 145 MWe. Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs.