Gjástykki

Gjástykki er sigdalur. Í honum er Gjástykkisbunga; lítil dyngja milli Hrútafjalla og Sandmúlahæða, og sú eina sem örugglega hefur gosið í sigdalnum. Sigdalurinn er áberandi á 4-5 km kafla norður af Hituhólum þar sem gjáveggir beggja megin dalsins eru allt að 20 m háir. Gjástykki er einkum þekkt af gjánum sem eru mjög ráðandi í landslagi. Í Kröflueldum rann hraun yfir syðsta hluta Gjástykkis og nær kolsvart hraunið norður fyrir Hituhóla. Jarðhitinn í Gjástykki kom upp á þrem svæðum í Kröflueldum (1975-1984). Það nyrsta, norður á móts við Hrútafjöll, er kalt nú, en hiti er í tveim þeim syðri, á móts við Éthóla og Sandmúla. Hitasvæðin eru öll í sprungureininni sem var virk í Kröflueldum. Tvö þau syðri eru á aðalgígasvæðunum, en það nyrsta skammt norðan þeirra. Jarðmyndanir eru fábreyttar í Gjástykki. Goseiningar eru fáar og flestar stórar. Gjár og misgengi einkenna það öðru fremur auk hraunsins frá Kröflueldum.

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa byrjað rannsóknir á háhitasvæðinu. Viðnámsmælingar benda til að vinnanlegur jarðhiti sé á um 10 km2. Til að skjóta frekari stoðum undir tilvist hans hefur verið boruð ríflega 600 m djúp kjarnahola. Botnhiti holunnar var 200 °C og ummyndunarsteindir eru merki um að þar hafi a.m.k einhvern tíma verið hár hiti. Efnagreiningar á gasi benda til um 280 °C djúphita í gufusvæði milli Éthóla og Gjástykkisbungu. Önnur jarðhitamerki á svæðinu eru sennilega tengd Kröflueldum. Sótt hefur verið um leyfi til borunar þriggja rannsóknarhola, sem yrðu boraðar frá einum og sama borteig. Í frumáætlunum er gert ráð fyrir 45 MWe virkjun.

Stærð svæðisins er metin 11 km2 og rafafl 55 MWe.