Bjarnarflag

Jarðhitasvæðið Bjarnarflag er vestan við Námafjall í Mývatnssveit. Háhitasvæðið teygir sig nokkuð suður fyrir fjallið og í norðri rennur það saman við jarðhitasvæði kennt við Kröflu. Yfirborðsummerki jarðhita er að finna á um 4 km2 við Námafjall, en viðnámsmælingar gefa til kynna um 20 km2 háhitasvæði. Austan Námafjalls er virkur yfirborðshiti á Hverarönd. Þar eru áberandi ummerki á yfirborði, sem koma fram í fjölbreyttum litbrigðum og leirhverum. Allir stærstu gufu­hverirnir austan við leirflagið eru afsprengi gamalla borholna frá tímum tilrauna til brennisteins­vinnslu.

Afmörkun jarðhitasvæðanna er byggð á tiltekinni túlkun viðnámsgagna. Vinnslusvæði innan þessa viðnámskjarna eru annars vegar í Bjarnarflagi og hins vegar í Kröflu. Hermun Námafjallskerfisins bendir til að áformuð vinnsla í Bjarnarflagi muni ekki hafa umtalsverð áhrif á jarðhita á Hverarönd.

Virkjun við Bjarnarflag hefur undirgengist mat á umhverfisáhrifum fyrir 90 MW rafafli. Skipulagsstofnun féllst á virkjunina með skilyrðum (26. febrúar 2004). 

Stærð svæðisins og rafafl eru metin með Kröflusvæði.