Askja

Í Dyngjufjöllum eru a.m.k. þrjár öskjur misgamlar og misstórar, Askja sjálf, Öskjuvatn og sú þriðja nafnlaus í Norðurfjöllum, á stærð við Öskjuvatn. Yngsta askjan, Öskjuvatn, varð til í kjölfar sprengigoss og kvikuhlaups undan rótum Öskju. Í sambandi við gliðnunarrykk, sem gekk yfir gosbeltið norðan jökla 1875, streymdi basaltkvika inn í kvikuhólf undir Öskju og út úr því til norðurs líkt og gerðist í nýlega Kröflu. Jafnframt blandaðist basaltkvikan að hluta súrri kviku sem fyrir var, og olli hitun hennar og hræringu. Afleiðingin varð plíníanskt sprengigos. Vatn er talið hafa verið meðverkandi um sprengingarnar fyrst í stað. Myndun jarðfallsins sem síðar varð Öskjuvatn, hófst strax eftir fyrsta sprengigosið í ársbyrjun 1875, en stækkaði ört eftir vikurgosið mikla í marslok sama ár. Gliðnun í Sveinagjársprungunum hófst um haustið 1874 og gaus þar með  hléum frá febrúar fram í október 1875. Gígarnir sem spúðu vikrinum í marslok 1875 hafa verið þar sem Öskjuvatn er nú. Smágos urðu í Öskju eftir marsgosið. Í einhverju þeirra varð Víti til.  Af gerð gosefnisins virðist vera um jarðhitasprengigíg að ræða.