Jarðhitasvæði á Íslandi

Reykjanesvirkjun - image

Jarðhiti á Íslandi á rætur að rekja til úrkomu sem kemst í snertingu við heitan berggrunn líkt og gerist á flekamótum annars staðar á jörðinni. Tengslin við eldvirknina eru þó mismikil, mest á háhitasvæðum sem eru öll tengd virkum eldstöðvum og líklegum kvikuinnskotum. Tengsl eru óbeinni á lághitasvæðum, en þar gætir þó áhrifa eldvirkninnar í hitaástandi jarðskorpunnar. Háhitasvæði eru í hinu virka gos- og gliðnunarbelti þar sem hraunkvika er víða á nokkurra kílómetra dýpi. Lághitasvæðin eru í jarðskorpu sem er eldri og hefur kólnað nokkuð um leið og hana hefur rekið  út frá gosbeltunum.