Hitaveitur á Íslandi

Hitaveitur skiptast í tvo flokka eftir því hvort þær hafa einkaleyfi til starfsemi á sínu veitusvæði og starfa samkvæmt reglugerð eða hvort starfsemin fer fram án slíks leyfis.

Fjölmargar smærri hitaveitur starfa ekki samkvæmt einkaleyfi og reglugerð. Er áætlaður heildarfjöldi slíkra veitna um 200.  Þær nýta flestar heitt vatn úr borholum, laugum eða hverum til húshitunar. Margar sjá einungis stökum sveitabæjum fyrir vatni, en einnig er um að ræða veitur sem veita vatni til fleiri bæja og sumarhúsabyggða eða atvinnustarfsemi á borð við fiskeldi, iðnað og ylrækt.

Upphaf nýtingar jarðhita til húshitunar má rekja til ársins 1908 þegar Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ veitti hveravatni heim að bæ sínum til upphitunar. Þá var hitaveita tekin í notkun í Laugaskóla í Reykjadal í nóvember 1924 og í Laugarvatnsskóla árið 1928, en samfélagslegar veituframkvæmdir hófust þó ekki í stórum stíl fyrr en með tilkomu Laugaveitunnar árið 1930 þegar 3 km löng pípa var lögð úr Þvottalaugunum í Reykjavík að Austurbæjarskóla. Hitaveita Reykjavíkur var í framhaldinu formlega stofnuð árið 1946, en áður höfðu Hitaveita Mosfellsbæjar og Hitaveita Ólafsfjarðar verið stofnaðar árin 1943 og 1944.

Olíukreppurnar árin 1973 og 1979 urðu til þess að breyta íslenskri orkustefnu. Mikil áhersla var lögð á að draga úr innflutningi á olíu og höfðu stjórnvöld frumkvæði að því að efla rannsóknir á jarðhita og ýta undir uppbyggingu hitaveitna.

Aukin áhersla á auðlinda­stjórnun hefur bætt nýtingu jarðvarma til upphitunar og hafa Hitaveita Sauðárkróks (Skagafjarðarveitur), Hitaveita Siglufjarðar (RARIK), Hitaveita Dalvíkur og Hitaveita Egilsstaða- og Fella náð umtalsverðum árangri í þá átt með breytingu á sölufyrirkomulagi frá hemlum í magnmæla og bættum stýrikerfum.

Töluvert er til af sögulegum heimildum um hitaveitur landsins og jarðhitanotkun í víðara samhengi.  Má þar meðal annars nefna bækurnar Auður úr iðrum jarðar eftir Svein Þórðarson (1998) og Jarðhitabókin eftir Guðmund Pálmason (2005).


Tölulegar upplýsingar um húshitun og varmanotkun má finna hér.