Eftirlit með jarðhitavinnslu og varmanotkun

Leiðbeiningar um gagnaskil fyrir jarðhitavinnslu og varmanotkun er að finna hér.

Samkvæmt lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 er eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings.

Til að sinna því hlutverki sem lýst er hér að ofan, er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun.

Árið 1994 hóf Orkustofnun kerfisbundna söfnun og útgáfu upplýsinga sem varða starfsemi hitaveitna og orkufyrirtækja og voru niðurstöður birtar í töflu 5 í ritinu Orkumál á árabilinu 1994 – 2001. Við þetta jókst vitneskja um vinnslu, notkun og ýmsar aðstæður veitna umtalsvert. Þessi gagnasöfnun hefur viðhaldist og eflst allt til dagsins í dag.

Frá árinu 2013 hefur Orkustofnun sent út forskráð framtöl á orkufyrirtæki og aðila sem vinna jarðhita úr jörðu og/eða fyrirtæki sem selja heitt vatn til notenda og beðið þau um að skila inn upplýsingum um framangreint í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar.

Tilgangur gagnaöflunarinnar er margþættur. Eins og nefnt hefur verið hér á undan þá eykur þetta vitneskju um vinnslu og notkun veitusvæða. Ennfremur eykur þetta áreiðanleika og skilvirkni framtalsgerða sem og vægi innri endurskoðunar framteljandans. Niðurstöðum framtalanna er miðlað til fjölmargra aðila hér á landi sem og alþjóðlegra stofnanna erlendis þar sem Orkustofnun ber meðal annars skylda til að skila inn upplýsingum um orkuvinnslu til Eurostat og IEA (International Energy Agency).

Hér á vef Orkustofnunar eru aðgengilegar útgefnar töflur sem unnar hafa verið úr framtölum fyrri ára. Má þar finna til að mynda upplýsingar um varmanotkun eftir veitusvæðum og frumorkunotkun jarðhita eftir vinnslusvæðum.