Djúpborun

holuhonnunÁ undanförnum áratug hafa helstu orkufyrirtæki landsins auk Orkustofnunar, Alcoa og nú nýlega Statoil unnið að undirbúningi og forathugun á svokölluðu djúpborunarverkefni (IDDP: Iceland Deep Drilling Project). Með því verður leitað svara við þeirri mikilvægu spurningu hvort nýtanlegur orkuforði háhitakerfa sé hugsanlega meiri en áætlanir gera ráð fyrir. Djúpborun getur auk þess dregið úr sjónrænum áhrifum jarðvarmavirkjunarinnar með færri borteigum á yfirborði.

Í júní 2006 var gengið frá samningi milli þessara aðila um að láta skeika að sköpuðu og stefnt að borun. Verkefnið hefur verið undirbúið af samstarfsnefnd þessara aðila (Djúprýni). Henni til fulltingis var annars vegar innlendur sérfræðingahópur um boranir og jarðhitavísindi og hins vegar alþjóðlegur vettvangur vísindamanna, svonefndur SAGA-hópur. Frá upphafi var gert ráð fyrir að borað yrði á virkjunarsvæðum allra orkufyrirtækjanna, svæðunum var raðað í forgangsröð háð aðstæðum. Fyrsta holan var skilgreind sem rannsóknar- og tilraunahola. Þar skyldi gerð ítarleg rannsókn á jarðlögum og þeim vökva sem upp kæmi og ef allt gengi að óskum yrðu þar gerðar tilraunir með orkunýtingu.

Í samstarfssamningunum er lögð áhersla á að nauðsynlegar rannsóknir geti farið fram. Það er m.a. gert með verklagsreglum sem eiga að tryggja að rannsóknafé verði flutt á milli holna ef þannig aðstæður skapast að ekki verði án óhóflegs kostnaðar hægt að framkvæma þær samkvæmt upphaflegri áætlun. Einnig er tryggt að framlag ríkisins verður frátekið til rannsókna og tilrauna á vökvanum. Enn fremur hafi ýmsir aðilar sýnt áhuga á þátttöku í einstökum rannsóknarverkefnum, t.d. prófun tækja við mjög háan hita sem ÍSOR stendur að ásamt samstarfsaðilum, fyrir styrk frá 6. Rammaáætlun ESB.