• header_jardhiti

Jarðhiti

Síðustu 100 ár hafa orðið næsta ævintýralegar framfarir í jarðhitarannsóknum hér á landi og Íslendingar komist í fremstu röð þeirra þjóða sem færa sér jarðhita í nyt.

Nú hefur mikill meirihluti landsmanna yl af honum í húsum sínum og nýtur hans til heilsubótar í sundlaugum og böðum auk þess sem hann er hafður til margvíslegra iðnaðarnota og raforkuvinnslu.  Hin tilkomumikla náttúrusmíð er orðin að mikilvægri auðlind sem á verulegan þátt í þeim góðu lífskjörum sem Íslendingar búa nú við.


Jarðhitasvæði á Íslandi

Jarðhiti á Íslandi á rætur að rekja til úrkomu sem kemst í snertingu við heitan berggrunn líkt og gerist á flekamótum annars staðar á jörðinni. Tengslin við eldvirknina eru þó mismikil, mest á háhitasvæðum sem eru öll tengd virkum eldstöðvum eða kvikuinnskotum.

Jarðhitanotkun

Ein mesta auðlind þessa lands er jarðhitinn og er þjóðin meðal þeirra sem nýta þessi orkulind mest og er þá ekki miðað við höfðatölu heldur heildartölur. Jarðhiti er hvergi mikilvægari í orkubúskapnum og er yfir 60% af frumorkunotkun á Íslandi.

Jarðhitavinnsla

Íslendingar hafa nú áttað sig á hve hagrænt gildi jarðhitans er mikið, einkum til húshitunar. Á síðari árum hefur áhugi einnig aukist á að framleiða raforku í jarðhitavirkjunum og mæta þannig vaxandi rafmagnsþörf stóriðjunnar.

Djúpborun

Djúpborunarverkefnið (IDDP – Iceland Deep Drilling Project) hófst árið 2000 þegar Orkustofnun, Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja (nú HS Orka) og Orkuveita Reykjavíkur hófu undirbúning að borun 4-5 km djúprar holu á háhitasvæði á Íslandi. Árið 2008 bættist norska fyrirtækið Statoil (nú Equinor) í hópinn.