Jarðhiti
Síðustu 100 ár hafa orðið næsta ævintýralegar framfarir í jarðhitarannsóknum hér á landi og Íslendingar komist í fremstu röð þeirra þjóða sem færa sér jarðhita í nyt.
Nú hefur mikill meirihluti landsmanna yl af honum í húsum sínum og nýtur hans til heilsubótar í sundlaugum og böðum auk þess sem hann er hafður til margvíslegra iðnaðarnota og raforkuvinnslu. Hin tilkomumikla náttúrusmíð er orðin að mikilvægri auðlind sem á verulegan þátt í þeim góðu lífskjörum sem Íslendingar búa nú við.