Vetni

Vetnisstöð

Vetni er lofttegund sem er til staðar í miklu magni í alheiminum en á jörðinni fyrirfinnst hún að mestu leyti í vatni og lífrænum efnasamböndum. Nýta má vetni til að knýja bíla en þá þarf hreint vetni til að setja á bílana. Ein leið til að framleiða vetni er með rafgreiningu vatns sem skilur að vetni og súrefni úr vatnssameindunum. Rafgreining er orkufrek og byggir á rafmagni, en að loknu framleiðsluferlinu er vetninu safnað saman og geymt á þrýstihylkjum sem orkuberi rafmagns í sama skilningi og rafhlöður. Þar sem rafmagn á Íslandi er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum þá er vetni framleitt hér einnig endurnýjanlegt.

Vetnisbílar eru líkir rafbílum að því leyti að þeir innihalda rafmótor sem knýr bílinn áfram. Í vetnisbíl er rafgeyminum sem orkubera skipt út fyrir vetnisþrýstihylki og við bætist efnarafall. Í efnarafal er rafmagn og vatn framleitt úr efnaorku sem losnar við efnahvarf vetnis og súrefnis. Raunar er hægt að brenna vetninu í sprengihreyflum líkt og bensíni, en vegna þess hve dýrt er að framleiða vetnið er yfirleitt horft til efnarafala sem hafa um 2,5 sinnum betri nýtingu en sprengihreyflar.