Metan

Metanbílar

Metan (CH4) verður til við niðurbrot baktería á lífrænum efnum. Það ferli nefnist gerjun og á sér stað við loftfirrtar aðstæður eða þar sem súrefni (O2) er ekki til staðar. Metan er skæð gróðurhúsalofttegund og veldur um 20 sinnum meiri hlýnunaráhrifum en koltvísýringur (CO2) og því er mikill umhverfislegur ávinningur að safna metaninu saman og brenna eftir megni.

Hér á landi er metani safnað á urðunarsvæðum í Álfsnesi í Reykjavík og í Glerárdal á Akureyri.

Metan sem ökutækjaeldsneyti getur í meginatriðum átt sér tvær uppsprettur. Annars vegar sem lífeldsneyti unnið úr úrgangi eða ræktuðum plöntum og hins vegar úr jarðgasi. Fyrrgreinda aðferðin er endurnýjanleg vegna þess að hún er unnin úr lífrænum úrgangi en sú síðari er óendurnýjanleg vegna þess að hún vinnur úr metani sem myndaðist í gömlum jarðlögum á jarðsögulegum tíma. Jarðgas er flutt kælt með stórum tankskipum milli heimsálfa.

Metanbílar sem ganga fyrir metani hafa hundraðfalt minna sótspor en bensínbílar og vegna niðurfellingar vörugjalda af metanbílum eru þeir ódýrari en bensínbílar af sömu gerð og tegund.