Lífdísilolía

steikingaroliumottaka-AK-nov-2017Lífdísill er unninn úr lífrænum úrgangi, svo sem steikarfeiti, fiskafgöngum, sláturúrgangi og þess háttar eða úr olíuríkum plöntum svo sem repju. Lífdísilolíu má blanda við venjulega dísilolíu og nota blönduna beint sem eldsneyti á hefðbundnar dísilvélar. Hægt er að ná umtalsverðri minnkun á losun koltvísýrings með lífdísilblöndu miðað við hefðbundna dísilolíu. Hlutfall blöndunnar er táknað með BX þar sem B stendur fyrir enska orðið „biodiesel“ og X hlutfall lífdísils í prósentum. Hægt er að nota hana sem íblöndun án þess að breyta þurfi vélum.

Lífdísilframleiðsla á Íslandi er sjálfbær, en hún byggir á lífrænum úrgangi og endurnýjanlegri orku enda er metanólið, sem er annað lykilhráefni fyrir framleiðsluna, unnið úr koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjunum. Lífdísilolía er innlend, endurnýjanleg orkulind sem mikilvægt er að nýta. Framleiðslumagn hennar mun þó aldrei uppfylla orkuþörf samganga á Íslandi ein og sér.

Framleiðendur lífdísilolíu á Íslandi eru Orkey og Íslenska Gámafélagið.