Endurnýjanlegir orkugjafar í samgöngum

Metan ruslabíll

Framleiðsla og nýting endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum hefur aukist á undanförnum árum samfara hröðum tækniframförum. Samfara þessu hefur verðlagning lækkað og hagkvæmum valkostum fjölgað s.s. rafbílar, tengiltvinnbílar, lífdísilolía, metanól, lífetanól, vetnisbílar svo einhver dæmi séu tekin.

Í dag eru flestir bílar á Íslandi knúnir með jarðefnaeldsneyti en hlutfall hreinorkubíla hækkar hratt. Umhverfisáhrif af völdum losunar við bruna jarðefnaeldsneytis og óendurnýjanleg uppspretta þess vekur fólk til umhugsunar um aukna notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er nóg að hækka hlutfall hreinorkubíla í umferðinni, einnig er mikilvægt að bæta nýtingu orkuauðlinda m.a. með því að fækka eknum kílómetrum. Í þéttbýli leiðir slíkt til minni umferðar, bættra loftgæða, styttir tíma sem fer í ferðir og svo má lengi telja. Margt er hægt að gera til að fækka kílómetrunum nú þegar s.s. að nýta almenningssamgöngur, ganga, hjóla hvort sem er á reiðhjóli eða rafhjóli og nýta þær miklu umbætur á hjólastígum sem gerðar hafa verið víða um land.

Aðgerðaráætlun um orkuskipti sameinar landsmenn um að taka skref í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Orkuskiptunum fylgja ýmis tækifæri eins og aukin nýsköpun og ný atvinnustarfsemi sem byggist á sjálfbærri þróun. 

Innlend framleiðsla

Mikil gróska er í innlendri framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum og má þar nefna metanólframleiðsluna hjá CRI, lífdísilframleiðslu úr úrgangssteikingarfeiti hjá Íslenska Gámafélaginu og Orkey. Sorpa og Norðurorka framleiða lífgasið metan úr hauggasi sem myndast á urðunarstöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sem er nýtt til að knýja bifreiðar, strætisvagna og sorphirðubíla.

Orkusjóður auglýsti nýverið eftir umsóknir um styrki til að efla innlenda eldsneytisframleiðslu og sjóðurinn auglýsti eftir styrkjum til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla um mitt ár 2016. Rafvæðing samgangna á Íslandi hefur tekið við sér að undanförnu og má þar nefna sem dæmi aukna sölu á tengiltvinnbílum og rafhjólum.

 Bæklingur um endurnýjanlegt eldsneyti á Íslandi