Eldsneytisspá 2021-2060

Orkuspárnefnd Orkustofnunar gaf út nýja eldsneytisspá í september 2021 fyrir tímabilið 2021-2060. Við endurskoðun eldsneytisspár frá 2016 var hópnum falið að endurskoða almennu forsendurnar og hafa þær verið gefnar út í sérstakri skýrslu.  

Eldsneytishópur nefndarinnar hefur unnið þessa spá, en í honum eiga sæti fulltrúar frá atvinnulífinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Ýmsir aðilar hafa komið að gerð eldsneytisspárinnar og veitt hópnum upplýsingar um afmarkaða þætti sem tengjast henni.

Aukin áhersla á orkuskipti

Aukin áhersla hefur verið á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis undanfarin ár og hafa stjórnvöld sett sér markmið um hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og haftengdri starfsemi. Þá hafa verið sett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til að mæta skuldbindingum Íslands gagnvart Parísarsáttmálanum, en þar er miðað við árið 2030. Stjórnvöld hafa ennfremur lögfest að Íslands skuli vera kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040. Í samþykktri orkustefnu fyrir Ísland, sem unnin var þverpólitískt, er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti á lofti, láði og legi fyrir árið 2050.

Sviðsmyndagreining

Grunnspáin sem sett er fram sýnir þróun miðað við óbreyttar forsendur (e. business as usual) sem í meginatriðum felur í sér að horft er til þeirrar framfara sem orðið hafa í orkuskiptum hingað til og ólíklegt er að snúi til baka en á móti gerir ekki ráð fyrir mögulegum aðgerðum til að flýta fyrir orkuskiptum í geirum sem eru skammt á veg komnir. Ljóst er að forsendur munu þurfa að breytast mikið ef stjórnvöld ætla sér að ná markmiðum sínum í orkuskipta- og loftslagsmálum. Því hafa verið útbúnar ólíkar sviðsmyndir um innleiðingu sem tilraun til að skoða hvernig þróunin þurfi að líta út til að ná þeim markmiðum. 

  • Sviðsmyndin hægar framfarir gerir ráð fyrir minni efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá ásamt hægari orkuskiptum.
  • Sviðsmyndin aukin orkuskipti gerir ráð fyrir óbreyttum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.
  • Sviðsmyndin Græn framtíð gerir ráð fyrir auknum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda ásamt því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.


     Eldsneytisspá 2021 - 2060 - Skýrsla Orkuspárnefndar Orkustofnunar

     Talnaefni -   OS-2021-T011-01 - töflur og myndir úr eldsneytisspánni

     Almennar forsendur orkuspáa 2021


Hér að neðan má sjá gagnvirka framsetningu niðurstaðna eldneytisspár og sviðsmyndagreiningar