Spurningar og svör

Fyrirspurnir sem berast Orkustofnun, og kunngjörðar verða opinberlega, munu birtast nafnlaust.

Spurning:

Fyrirspurn hefur borist frá mögulegum þátttakanda í útboðinu, hvort Orkustofnun sé kunnugt um aðila sem hefði hug á að leita samstarfs við annan aðila í útboðinu þannig að um sameiginlega þátttöku þeirra gæti verið að ræða í útboðinu.

Einnig var spurt um það hvort Orkustofnun vissi til þess að mögulegir þátttakendur í útboðinu gætu hugsað sér samstarf við aðra mögulega sérleyfishafa til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu, eftir útboðið, og þá hvort Orkustofnun gæti miðlað slíkum óskum eða hugmyndum milli þátttakenda.

Svar:

Orkustofnun miðlar ekki að fyrra bragði upplýsingum um væntanlega þátttakendur eða áhuga einstakra félaga. Eins er innihald umsókna trúnaðarmál. Hins vegar telur Orkustofnun ekkert standa í vegi fyrir því að miðla slíkum upplýsingum milli aðila, í trúnaði, sé þess óskað, hvort heldur er fyrir útboðsfrestinn eða eftir að hann er liðinn. Ákvörðun um veitingu sérleyfa til þátttakenda, eins eða fleiri saman, myndi þá væntanlega taka mið af slíku samstarfi aðila.


Spurning:

Þarf aðili að vera skráður aðili á Íslandi til þess að geta tekið þátt í útboði sérleyfa á Drekassvæðinu?

Svar:

Nei, það er nægjanlegt að skilyrðið sé uppfyllt áður en leyfi er gefið út, sbr. 6. mgr. 2. gr.  laga nr. 13/2001, en þar er Leyfishafi skilgreindur svo að hann sé skráður aðili hér á landi sem fengið hefur leyfi til rannsóknar og/eða vinnslu kolvetnis. Íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum telst skráður aðili.


Spurning:

Er hægt að fá aðgang að nákvæmari dýptargögnum en sem nemur 50 m reitun á fjölgeislamælingum Hafrannsóknarstofnunarinnar frá 2008?

Svar:

Já, sendið tölvupóst á os@os.is til að óska eftir slíkum gögnum. Gefið upp hnit fyrir svæðið sem um er að ræða.